Saga Meistarafélags húsasmiða

Húsasmiðir í Reykjavík stofnuðu hagsmunafélag árið 1899, þ.e. Trésmiðafélag Reykjavíkur.
Árið 1954 skiptist félagið í tvær sveitir, sveina og meistara. Meistarafélag húsasmiða var síðan formlega stofnað 4. júní 1954.

Skiptar skoðanir voru um  að skipta Trésmiðafélag Reykjavíkur í tvær sveitir, en þróun kjaramála þrýsti á félögin til að taka upp eðlileg samskipti, því vinnudeila hófst 1955 þar sem Trésmiðafélagið eins og mörg önnur launþegafélög fór í verkfall og atvinnurekendur þ.e. Vinnuveitendasamband Íslands lýsti því yfir að ekki yrði samið við Trésmiðafélagið utan þess að full viðurkenning fengist á Meistarafélagi húsasmiða sem réttum aðila til að semja við sveina í iðninni um kaup og kjör.

Undirbúningur að stofnun Meistarasambands byggingamanna tók nokkurn tíma, en sambandið var formlega stofnað 5. maí 1958. Á fyrstu starfsárum Meistarafélags húsasmiða naut félagið ýmissar fyrirgreiðslu af hendi Landssambands iðnaðarmanna m.a. fyrir milligöngu Meistarasambandsins, en sambandið samdi við Landsamband iðnaðarmanna um afnot fyrir aðildarfélög af skrifstofu þess að Laufásvegi 8 og ókeypis skrifstofuþjónustu.

Um áramótin 1981-1982 tók gildi úrsögn Meistarasambands byggingamanna úr Vinnuveitendasambandi Íslands. Samstarf Meistarafélags húsasmiða og Landssambands iðnaðarmanna var ávalt mjög gott og naut félagið þar fyrirgreiðslu á mörgum sviðum, ekki síst í formi ráðgjafar og kannana. Samstarfið hélst allt þar til Landssamband iðnaðarmanna var lagt niður við stofnum Samtaka iðnaðarins. Meistarafélag húsasmiða tók þá ákvörðun að vera ekki aðili að Samtökum iðnaðarins og sú ákvörðun hafði í för með sér verulega röskun á öllu sem snerti hagsmunagæslu og samskipti við hið opinbera.

Í nóvember 2012 var undirritaður samningur um aðild Meistarafélags húsasmiða að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Eftir inngöngu Meistarafélags húsasmiða starfa nær öll samtök atvinnurekenda í byggingariðnaði sameinuð undir merkjum Samtaka iðnaðarins.

Árið 1899

Trésmíðafélag

Húsasmiðir í Reykjavík stofna hagsmunafélagið Trésmiðafélag Reykjavíkur.

Árið 1899

Árið 1954

Meistarafélag húsasmiða

Félagið skiptist í tvær sveitir, sveina og meistara. Meistarafélag húsasmiða var síðan formlega stofnað 4. júní 1954.

5. maí 1958

Meistarasambands byggingamanna

Formlega stofnað.

5. maí 1958

Nóvember 2012

Gengið til liðs við SI og SA

Samningur er undirritaður um aðild Meistarafélags húsasmiða að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins.